Á toppnum

 

 

birta dolli borgahausJa nú er mál að blogga.. langt og margt búið að ske síðan síðast.

Ég er búin að komast að því að þegar maður er ekki í vinnu þá hefur maður mest að  gera, tekur að sér allskonar verkefni og er að drukkna í því öllu...nei annars þetta er alveg frábært að vera svona sjálfs síns herra yfir sumarið sem er náttúrulega búið að vera algjört æði, alla vega  fyrir þá sem ekki þurfa að hafa áhyggjur af rigningarleysi og þurrkum því fylgjandi. Annars hef ég miklar áhyggjur af þessum þurrki , golfvöllurinn okkar er að skrælna og því vona ég svo sannarlega að eitthvað verði úr þessari rigningu sem spáð er um helgina.

Byrjuðum sumarið á að fara til Danmerkur í sumarhús með minni góðu vinkonu Björk og hennar fjölskyldu og áttum frábæra daga þar. Síðan er búið að fara í Borgarfjörðinn og liggja í leti í sumarbústaðnum  og skemmta sér í  frábæru  brúðkaupi  í Skagafirði.

En húsbóndinn á  heimilinu ( ekki ég )  er algjörlega ofvirkur þessa dagana, hékk utaná kirkjuturninum í nokkra daga og málaði í gríð og erg, lét það ekki nægja og lagði til á mánudagskvöldið að við  færum og máluðum þakið á gamla skátabragganum, sem við og gerðum og gekk það vonum framar og enginn datt niður í þetta skiptið. Í gærmorgun er ég skreiddist á fætur með auma handleggi og stirðan skrokk  eftir málningarvinnu uppi á þaki í fimm tíma, stakk hann uppá að við færðum okkur enn hærra og færum í fjallgöngu uppá Borgarhaus. Ég reyndi að draga úr ákafanum og sagðist nú vera frekar aum í handleggjunum eftir málningarvinnuna. “Hvað er þetta manneskja ekki ætlar þú að fara upp fjallið á handahlaupum, eða hvað ? “ Þar með var það útkljáð og gönguskórnir dregnir fram úr geymslunni og nesti pakkað í bakpokann og lagt af stað, Hr. Adolf arkaði fyrstur og við mæðgurnar  ég og Sigurbjörg Birta fylgdu honum fast eftir. Ferðin upp  gekk vel og var greinilegt að fleiri en við höfðu ákveðið að klífa fjallið á svona fallegum degi, því við mættum tveimur fjallgöngumönnum á leið okkar.  Eftir að hafa spókað okkur á toppnum í dágóða stund og snætt nestið, skrifað í gestabókina og tekið nokkrar myndir var haldið niður aftur. Voru það nú við Birta sem höfðum forystuna. 

Eftir kvöldmat var svo haldið í golf, en ekki var nú skorið til að hrópa húrra yfir þrátt fyrir vonir um að endurtaka minn besta  golfhring  fyrir viku síðan.

En ég er núna búin að fatta þetta með ofvirkni Dolla þessa dagana, við erum  nefnilega að verða amma og afi núna alveg næstu daga og hann heldur örugglega að þá skelli yfir hann elli og göngustafurinn  komi fljúgandi með storknum og því sé best að vera búin að afreka sem flest meðan hann getur.

Kveð að sinni.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband