Á toppnum

 

 

birta dolli borgahausJa nú er mál að blogga.. langt og margt búið að ske síðan síðast.

Ég er búin að komast að því að þegar maður er ekki í vinnu þá hefur maður mest að  gera, tekur að sér allskonar verkefni og er að drukkna í því öllu...nei annars þetta er alveg frábært að vera svona sjálfs síns herra yfir sumarið sem er náttúrulega búið að vera algjört æði, alla vega  fyrir þá sem ekki þurfa að hafa áhyggjur af rigningarleysi og þurrkum því fylgjandi. Annars hef ég miklar áhyggjur af þessum þurrki , golfvöllurinn okkar er að skrælna og því vona ég svo sannarlega að eitthvað verði úr þessari rigningu sem spáð er um helgina.

Byrjuðum sumarið á að fara til Danmerkur í sumarhús með minni góðu vinkonu Björk og hennar fjölskyldu og áttum frábæra daga þar. Síðan er búið að fara í Borgarfjörðinn og liggja í leti í sumarbústaðnum  og skemmta sér í  frábæru  brúðkaupi  í Skagafirði.

En húsbóndinn á  heimilinu ( ekki ég )  er algjörlega ofvirkur þessa dagana, hékk utaná kirkjuturninum í nokkra daga og málaði í gríð og erg, lét það ekki nægja og lagði til á mánudagskvöldið að við  færum og máluðum þakið á gamla skátabragganum, sem við og gerðum og gekk það vonum framar og enginn datt niður í þetta skiptið. Í gærmorgun er ég skreiddist á fætur með auma handleggi og stirðan skrokk  eftir málningarvinnu uppi á þaki í fimm tíma, stakk hann uppá að við færðum okkur enn hærra og færum í fjallgöngu uppá Borgarhaus. Ég reyndi að draga úr ákafanum og sagðist nú vera frekar aum í handleggjunum eftir málningarvinnuna. “Hvað er þetta manneskja ekki ætlar þú að fara upp fjallið á handahlaupum, eða hvað ? “ Þar með var það útkljáð og gönguskórnir dregnir fram úr geymslunni og nesti pakkað í bakpokann og lagt af stað, Hr. Adolf arkaði fyrstur og við mæðgurnar  ég og Sigurbjörg Birta fylgdu honum fast eftir. Ferðin upp  gekk vel og var greinilegt að fleiri en við höfðu ákveðið að klífa fjallið á svona fallegum degi, því við mættum tveimur fjallgöngumönnum á leið okkar.  Eftir að hafa spókað okkur á toppnum í dágóða stund og snætt nestið, skrifað í gestabókina og tekið nokkrar myndir var haldið niður aftur. Voru það nú við Birta sem höfðum forystuna. 

Eftir kvöldmat var svo haldið í golf, en ekki var nú skorið til að hrópa húrra yfir þrátt fyrir vonir um að endurtaka minn besta  golfhring  fyrir viku síðan.

En ég er núna búin að fatta þetta með ofvirkni Dolla þessa dagana, við erum  nefnilega að verða amma og afi núna alveg næstu daga og hann heldur örugglega að þá skelli yfir hann elli og göngustafurinn  komi fljúgandi með storknum og því sé best að vera búin að afreka sem flest meðan hann getur.

Kveð að sinni.


Kjósum oftar

Hvernig væri að kosningatímabil til Alþingiskosninga yrði fært niður í tvö ár í staðin fyrir fjögur? Ég held að það gæti verið nokkuð gott, það er svo mikið í gangi núna fyrir kosningar, allskonar samningar sem lengi hafa verið í deiglunni eru undirritaðir og mál kláruð í einum grænum. Skiljanlegt, ráðherrar og sumir alþingismenn að hætta störfum og hreinsa upp sín mál. Sem manni finnst nú á stundum að séu geymd til að nota í kosningabaráttu svo góðu verkin séu mönnum fersk í minni á kosningadag.

þetta þarf að gerast oftar.  Við erum hvort eð er alltaf að skipta um ráðherra erum t.d. búin að hafa þrjá Forsætisráðherra þetta tímabil og aðrir hafa svissað embættum hægri og "vinstri". Svo er náttúrulega svo gagnlegt að fá  þessa umræðu og loforð um hvað allir ætla að gera ef... ef.. sumt er samt alveg ótrúlega vitlaust  ef menn skoða yfir völlinn og setja sig inn í hugmyndirnar þær eru sumar hverjar ekki alveg hugsaðar til enda. Kannski ættum við að hafa Alþingiskosningar samhliða Eurovision á hverju ári og leyfa símakosningu á hverja við viljum sjá í ráðherrastólum alveg óháð flokkum og listum.  Ég er viss um að þátttaka yrði fram úr hófi og við myndum ekki standa okkur síður en í Supernova.  Annars er ég svolítið hugsi yfir því að fólk hafi virkilega þær hugmyndir um okkur á landsbyggðinni að við getum bara lifað af því að tína fjallagrös,brugga bjór og fá sér jullu og róa til fiskjar. En þar sem ég er nú nýbúin að missa vinnuna þá gæti kannski eitthvað af þessu hentað mér ætti kannski ekki að útiloka að þetta sé innmitt það sem ég þarf, enn ekki reikna með að ég borgi neina skatta af þessari atvinnu nýsköpun , það verða einhverjir aðrir að leggja í það púkk til að sjá um að fjármagna ríkisútgjöldin sem í fljótu bragði virðast alla vega ekkert vera að minnka. 


N 1

 

sitelogoN 1 nýtt nafn á gamla Esso, ja ég er nú svo fattlaus að ég er alls ekki að skilja þetta nýja nafn, það fyrsta sem mér datt í hug var “ enn eitt “  nafnið eða “enn einu” sinni bensínlaus, en þetta er vist eitthvað nýtískulegt og svona “inn” nafn  sumir setja þetta í samband við númer 1 eða eða number 1 sem er vísir á útrás og eins og við vitum er það alflottasta að vera í útrás á erlendum vetvangi , að vísu tel ég það vera hið besta mál að breyta Esso, enda versla ég hjá Olís, það  kostaði þá víst alveg gommu af samráðspeningum að nota þetta Esso nafn á ári hverju. Alltaf gott að spara.   Eitt var ég samt að spá í þegar ég brunaði í gegnum Blönduós í gær og framhjá  “Esso” Skálanum, þar sem menn voru í stigum utan á skálanum í óðaönn að breyta nafninu, verður þetta “ enn einn” Skálinn  á Blönduósi ?  Svolítð asnalegt , finnst mér , þar sem það er bara einn Skáli á  Blönduósi.


Bleikir miðar

eydduisparnad_takkar2

Jæja eitthvað er nú kellan búin að vera löt í þessu bloggi bara ekkert í langan tíma. Það er svona þegar alltaf er þvílíkt brjálað að gera á öllum vígstöðum. Endalausar Reykjavíkur ferðir um hverja helgi á árshátíðir og í  fermingarveislur og dagarnir bara hverfa, alltaf helgar og mánaðarmót um aðra hverja helgi. Ég held að þetta hafi ekki verið svona í dentíð, allt svo miklu betra í gamla daga.  Eða hvað ?   Kanski þarf ég bara að fá mér tímavél sem getur sent mig fram og aftur í tíma svo ég hafi tíma til alls þess sem ég þarf  að gera og ekki síst það sem ég ætla að gera en hef ekki tíma til og hef fyrir löngu  sett í langtímageymslu  yfir það sem ég ætla að gera.  Þetta er farið að hljóma eins og landsbanka auglýsingin um að eyða í sparnað.   Hausinn á mér er örugglega fullur af svona bleikum miðum, og margir svona gulir innanum sem settir eru á bið. Vona bara að það sé skemmtilegt aðstoðarfólk í mínum haus sem tekst að ýta þessum gulu miðum eitthvað áfram.    Bölvað bull er þetta.  já það sagði ég líka fyrst þegar ég sá þessa auglýsingu því ég fattaði hana bara alls ekki .. það var ekki fyrr en  Spaugstofu grínararnir   sneru þessari auglýsingu upp á  Kristinn  Björnsson fyrverandi  olíubarón eftir  að hann hafði komið í kastljós og bullað eitthvað í  marga hringi ,um olíusamráð, honum hefði ekki veitt af að finna hvað stóð á gula minnismiðanum sem hann var greinilega búinn að týna úr sínum haus. Þá fattaði ég auglýsinguna. 

Á föstudaginn fer ég i Sjallan á Akureyri, Sonja mín er að keppa í Ungfrú Norðurland og ég náttúrulega læt mig ekki vanta, vona bara að Dolli verði orðin hress af flesnsunni og komist líka. Karlmenn og veikindi ... segi ekki meir... vona bara svo innilega að hann fari að hressast. 


Víni breytt í vatn !!!

Frábær helgi í Rvk. við örþreyttar húsmæður í A- Hún fórum saman í orlofsferð til Rvk í dekur og Djamm.

Byrjuðum á því að dúlla okkur í Mekka spa við heita potta, nuddu og notarlegheit.Tina
Á laugardagskvöldið, eftir kennslustund í daðri og  djammráðleggingum frá Heiðari snyrtipinna, var svo haldið á Broadway á Tinu Turner show.  Þær Sigga Beinteins og  Bryndís Ásmundsdóttir flytja lög rokkdrottningarinnar alveg frábærlega, sérstaklega Bryndís. Maturinn var þokklegur og allir í stuði. Síðan tók við dansfjör á fullu og rölt á barinn inn á milli, reyndar urðu ferðirnar á barinn nokkuð margar ,en það kom ekki að sök því þó undirrituð hafi sennilega skellt í sig hálfri flösku af vodka og nokkrum skotum þá bar lítið á áhrifum. Ekki það að ég sé skyndilega farin að mynda þvílíkt alkahól þol, því ekki hafa verið hjá mér stífar æfingar í gegnum tíðina, heldur tel ég alveg víst að þeir  Broadway rekstraraðilar séu nokkuð góðir í því að breyta víni í vatn, svona alveg öfugt við forðum daga, þokkaleg afturför það. En næst er ég skrepp á barinn, allavega á Broadway, þá fæ ég mér eitthvað sem ég helli sjálf í glösin. Ég veit svo sem að það þarf stundum að hafa vit fyrir fólki, en að selja manni fyrirhyggjuna dýrum dómi er það nú ekki full mikið ?
Police
Svo er passað uppá að liðið komi sér út um leið og hljómsveitin hættir að spila, kl: 01:30 með því að hafa diskaspilið svo leiðinlegt að fólk hreinlega flýr úr húsi, svona rétt áður en það kemst að þvi hvað það er búið að eyða miklu á barnum, án árangurs.

En þegar upp var staðið, alveg frábær ferð, mikið hlegið og dansað.   Takk fyrir helgina stelpur.

 

Dadda,  enn í stuði.Smile

 


Konur hvar stöndum við ?

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag.

Einu sinni hélt ég að ég væri  grjótharður feministi af því að mér fannst og finnst  ennþá  að konur  eigi að hafa jafnan rétt á við karla, sömu laun fyrir sömu vinnu, sömu tækifæri í lífinu að gera það sem maður vill, burtseð frá kyni. En þá var mér góðfúslega bent á að ég væri alls ekki harður feministi heldur “bara” jafnréttissinni.  Já þá það, því  það er akkúrat það sem ég vill, ég vil jafnrétti og finnst það reyndar grátlegt að við séum enn þann dag í dag að borga köllum meira kaup en konum fyrir sömu vinnu en  það segir okkur reyndar meira um vinnuveitandann en jafnréttið.

En hvað er það sem við konur viljum.. viljum við virkilega að sett séu lög um konur umfram karla?  eða er ég bara svona græn að halda að hægt sé að koma á jafnrétti án sértækra aðgerða  gegn karlrembum. 

Satt að segja finst mér vera komið of mikið af “kvennfyrirhyggju” í umferð, stundum eins og  við konur séum alltaf að reyna að hafa vit fyrir hvor annari og ákveða hvað konur vilja og setja það svo bara í lög. Ef ég vil vera í stjórn einhvers fyrirtækis  þá hlýt ég að skapa mér þá stöðu sjálf ekki með lögum heldur eigin verðleikum. Ég vildi ekki sjá kall í stjórn míns fyrirtækis sem ekki á  þar neitt erindi og ekki heldur konu. Ef ég vildi fara á þing þá lít ég svo á að mér standi  allar dyr galopnar í þeim efnum , sem íbúa þessa lands, það er bara spurnig hvað ég hef fram að færa og  fyrir hvað  ég stend, er ég hæf, vil ég eyða böns af peningum í prófkjör ?   en ekki afþví “bara “ að ég er kona, eða karl. Það á að meta fólk af verðleikum ekki eftir kynferði.   Þá er nú  lýðræðið farið fyrir  lítið ef við ætlum að fara að binda kvenfrelsið  í lög eins og ég las einhvers staðar.

Enda skil ég ekki þetta orð “ Kvenfrelsi”  frelsi til að gera hvað ? hvað er það sem kallar á þetta orð ? ég er frjáls kona ( í orðsins fyllstu merkingu )  ég er ekki neydd til neins vegna þess að ég er  kona,  ég hlýt alltaf að hafa val. Ég hef aldrei heyrt talað um Karlfrelsi.

Svo er það náttúrulega fyrirhyggjan sem öllu tröllríður og ákveður fyrir okkur hvað við viljum og eigum að vilja. Stundum finnst mér eins umræðan sé um að  allar konur eigi að vilja vera stórnendur, stórbissneskonur, ráðherrar og allt þetta sem sumum finnst svo uber mikilvægt  og þær konur séu bara eitthvað “ út á túni “  sem  hafa ekki áhuga eða löngun í titla og að hanga í metorðastiganum og velji sér allt aðrar leiðir í lifinu, eins og við gerum nú flestar.  Því segi ég manngildið ofar  öllu og áfram stelpur..við getum gert það  sem við viljum því  við erum auðvita , bestar, gáfaðastar  og  frekastar.. ef við leggjum okkur fram.   Til  hamingju með daginn.

 


Dadda bloggar

Jæja þar kom að því , loksins kominn með bloggsíðu, eitthvað sem alltaf hefur verið á döfinni en aldrei verið komið í verk. Er það ekki  oft svoleiðis, svo þarf bara einhver að  taka af skarið, en það var auðvita ekki ég, heldur tók húsbóndinn þá ákvörðun að við ættum að fara að blogga, það er náttúrulega alveg frábært.  Já það þarf stundum að láta hlutina gerast, hversu oft hefur það ekki komið fyrir að maður lætur eitthvað bíða, geri þetta bara seinna, en tíminn flýgur og svo veit maður ekki fyrr en þetta "seinna" er löngu liðið eða kemur kanski aldrei. Þannig að takk Dolli fyrir að ýta við mer. Vonandi verð ég dugleg við að bogga. En nú þarf ég að klára frábæra bók "Flugdrekahlauparann" kanski blogga ég eitthvað um þá bók . "seinna".

Dadda kveður. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband